„Bara geggjuð tilfinning að ná inn þremur stigum, geggjað á heimavelli og bara já, geggjað.“
Selfoss byrjaði leikinn illa og voru lentar marki undir eftir aðeins þrettán mínútna leik. Markið skoraði Melissa Alison Garcia í liði Tindastóls eftir hornspyrnu Laufeyjar Hörpu Halldórsdóttur.
„Bara léleg dekkning inni í teig, það gerist en óþarfi að fá á sig þetta mark.“
En Selfyssingar voru fljótir að snúa leiknum sér í hag og fóru með verðskuldaða forystu til búningsherbergja í hálfleik. Katla María setti fyrra markið af tveimur í fyrri hálfleik. Þar virtist hún reyna fyrirgjöf en boltinn skoppaði framhjá öllum sóknar- og varnarmönnum inni í teignum og lak í netið á fjærstönginni.
Eva Lind Elíasdóttir stækkaði forystu heimakvenna áður en Katla gekk endanlega frá þeim í byrjun seinni háfleiks. Seinna mark Kötlu kom eftir að dómari leiksins dæmdi óbeina aukaspyrnu fyrir Selfoss inni í markteig Tindastóls. Dómurinn var mikið vafaatriði en það skipti Kötlu engu máli sem skoraði af öryggi eftir sendingu frá Barbáru Sól.
„Fyrsta markið var nátturulega bara algjörlega fyrirgjöf sko. Heppinn að liggja inni. En já, svo fáum við þessa óbeinu aukaspyrnu og ég bara set hann þar. Ekkert flóknara en það“
Selfoss heimsækir Keflavík næsta mánudag áður en þær mæta Tindastól aftur í Mjólkurbikarnum.
„Við erum með mjög góðan og breiðan hóp þannig að ég hef engar áhyggjur af því.“