Eldurinn kom upp á Loafers Lodge, sem meðal annars hýsti farandverkafólk, atvinnulausa og heimilislausa. Níutíu herbergi voru á gistiheimilinu og virðist nokkuð óljóst hversu margir voru í húsinu þegar eldurinn kom upp, rétt eftir miðnætti á staðartíma.
Lögregla gerir ráð fyrir að tala látinna muni hækka.
Meðal þess sem er til rannsóknar er hvort eldsvoðinn tengist öðru atviki sem tilkynnt var um tveimur tímum áður, um eld í sófa. Rannsakendur komust ekki inn í bygginguna fyrr en meira en sólahring eftir brunann, þar sem óvíst var um öryggi húsnæðisins.
Lögregla hefur hvatt þá sem kunna að hafa dvalið á gistiheimilinu og farið eitthvað annað þegar eldurinn kom upp til að setja sig í samband við yfirvöld og láta vita af sér.