Auk þess að vera dúx skólans hlaut Thanawin verðlaun fyrir námsárangur sinn í stærðfræði, eðlisfræði, íslensku, ensku og þýsku, nánast öllum fögunum sem hann þreytti.
Aðspurður segist Thanawin hafa lagt hart að sér en ekki vitað hvort árangur sem þessi myndi nást. „Það voru margir sem voru að standa sig mjög vel líka,“ segir Thanawin í samtali við Vísi. Hann var á leið heim eftir athöfnina þegar fréttastofa náði tali af honum.
Utan skólans spilar Thanawin fótbolta með Breiðabliki. „Ég æfi fimm sinnum í viku og svo eru leikir um helgar,“ segir hann. Þrátt fyrir allt segist hann þó hafa gefið sér tíma til þess að mæta á völl.

Thanawin fæddist í Taílandi og bjó þar fyrstu þrjú árin þar til fjölskyldan flutti til Íslands. Foreldrar hans eru bæði tölvunarfræðingar og hann játar að þau eigi mögulega þátt í raungreinaáhuga hans. En í MS var hann á náttúrufræðibraut, eðlisfræði- og stærðfræðilínu.

Hann segist þó brátt hafa náð betri tökum á íslenskunni en foreldrarnir, en heima hjá honum er töluð taílenska. Hann segir þau samt oft hafa getað hjálpað sér með raungreinaheimanámið.

Í haust liggur leið Thanawins í háskóla „Ég stefni á að fara í vélaverkfræði í HÍ,“ segir hann. Aðspurður segist Thanawin ætla að halda því opnu hvort hann haldi áfram í boltanum samhliða náminu.