Snorri Steinn var gestur í nýjasta þætti Handkastsins þar sem hann ræddi meðal annars hitamál tengt landsliðsþjálfaraleit HSÍ.
Það var um miðjan aprílmánuð sem Dagur Sigurðsson, einn besti handboltaþjálfari Íslands og núverandi landsliðsþjálfari Japan, steig fram í viðtali við Vísi og greindi frá óformlegum fundi sem hann átti við forkólfa HSÍ.
Sagði Dagur fundinn hafa minnt sig á leikþátt og að hann hafi ekki verið reiðubúinn að starfa með umræddum forkólfum eftir hann. Hugmyndir höfðu verið viðraðar um að Dagur og Snorri Steinn myndu saman taka við landsliðinu.
„Við hefðum alveg verið tilbúnir í að koma að þessu saman,“ sagði Snorri Steinn, nýráðinn landsliðsþjálfari Íslands í Handkastinu. „Hvernig það hefði verið, ég tel óþarfa að vera fara eitthvað út í það, þetta varð bara ekki að veruleika.“
Samtöl við HSÍ um að hann og Dagur myndu taka við íslenska landsliðinu saman hafi aldrei farið á alvarlegt stig.
„Ég og Dagur ræddum heldur ekkert okkar á milli hvernig við myndum haga hlutunum, bara alls ekki. Það var heldur ekkert skilyrði af minni hálfu, þegar að ég sagðist hafa áhuga á landsliðsþjálfarastarfinu, að það yrði með Degi. Það var ekki svoleiðis.“
Sleppti því að fara í búðina
Það tók HSÍ eitt hundrað daga að ganga frá ráðningu á eftirmanni Guðmundar Guðmundssonar í starf landsliðsþjálfara Íslands og á ýmsu gekk í ferlinu.
Snorri Steinn segist ekki gera sér grein fyrir því hversu mikil, ef einhver áhrif, það hafði að vera miðpunktur allrar umræðunnar í tengslum við íslenska landsliðið og landsliðsþjálfarastarfið yfir lengri tíma.
„Þetta var langur tími og maður gerir sér einhvern veginn ekki grein fyrir því hvaða áhrif þetta hafði. Kannski hafði þetta áhrif á leik Valsliðsins og auðvitað var þetta svolítið mikið.“

Hann segist sjálfur hafa verið orðinn þreyttur á öllum þeim fréttum sem birtust í tengslum við ráðningarferlið.
„Ég get alveg viðurkennt það. Það var eitthvað um mann sjálfan í blöðunum á hverjum einasta degi en þetta truflaði mig samt ekkert það mikið. Ég sleppti því að fara í búðina á þessum tíma og gerði bara þá hluti sem ég þurfti að gera.“
Snorri er einn af þeim sem er ekki mikið á samfélagsmiðlum.
„Þar af leiðandi fer líka fullt fram hjá mér í umræðunni. Maður getur aðeins valið hvað maður tekur inn. Ég fer inn á Vísi, MBL og les fréttir um eitthvað annað en íþróttir en þetta fór aldrei á það stig að ég væri að missa einhvern svakalegan svefn yfir þessu.“
Viðtalið við Snorra Stein í Handkastinu í fullri lengd má finna hér fyrir neðan: