Buff hefur lengi verið eitt af einkennismerkjum forsetans en það vakti landsathygli þegar hann deildi mynd af sér með buff á höfði við afhjúpun á upplýsingaskilti á Bessastöðum í nóvember 2016. Líklega var hann þar fyrsti forsetinn til að gegna embættisverki með slíkt höfuðfat.
„Það voru engir pítsustaðir þegar Sveinn Björnsson var forseti,“ sagði forsetinn léttur í bragði í Bítinu á Bylgjunni í morgun spurður hvort hann væri alþýðlegri forseti en aðrir sem á undan honum komu.
Hann og Eliza Reid forsetafrú hafi mætt með barnaskara á Bessastaði. Spurður að því hvernig börnunum hafi líkað veran á Bessastaði segir Guðni að hann telji að þeim líki ágætlega vel við sig.

Guðni segir alltaf vel mætt á Bessastaði þegar forseti býður almenningi í heimsókn líkt og næstkomandi sunnudag. Hann verður til staðar til þess að taka á móti gestum en Eliza verður erlendis til þess að vera viðstödd heimsleika Special Olympics.
„Það verður hægt að ganga um húsakynnin, fara inn í sal og inn í bókhlöðu, niður fyrir þau sem hafa á því tök að fara niður í fornleifakjallara og svo eru gjafir sem má sjá uppi á lofti frá Reagan og Gorbachev og Nixon og fleirum.“
Spurður út í gjafir til forseta Íslands segir Guðni að þær séu opinber eign embættisins en ekki forsetans persónulega, nema þær séu minniháttar.
„Buff. Ég fæ að eiga öll mín buff. Ég held að ég eigi stærsta buffsafn á Íslandi. Nú eða ef gjöfin er þess eðlis að það má neyta henni þar og þá í föstu formi eða fljótandi en aðrar gjafir þær eru eign embættisins.“
Frétt uppfærð kl. 12:55.
Í upphaflegri útgáfu fréttar kom fram að forseti byði almenningi í heimsókn á morgun 17. júní. Rétt er að boðið er á sunnudag á milli 13 og 16.