Í tilkynningu Geislavarna segir að börn séu viðkvæmari fyrir útfjólubláum geislum, eða UV-geislum, en fullorðnir. Huga þurfi að börnum nú þegar sólin gerir vart við sig.
Geislavarnir minna einnig á að styrkur UV-geislanna sé breytilegur yfir daginn og að þrátt fyrir að sólin skíni ekki geti hann verið hár og því skaðlegur, sé sólarvörn ekki notuð.
Þá endurvarpi sandur og vatn að auki UV-geislunum sem eykur styrk þeirra enn frekar.
Geislavarnir vekja athygli á vefsíðunni uv.gr.is þar sem hægt er að sjá hver UV-stuðillinn er í Reykjavík hverju sinni. Sé stuðullinn hærri en 3 sé æskilegt að nota sólarvörn, sitja í skugga, klæðast höfuðfati eða öðrum flíkum og takmarka þann tíma sem fólk er óvarið í sólarljósi.