Höllin er nefnd í höfuðið á Max Schmeling, frægasta hnefaleikakappa Þjóðverja. Hún er þriðja stærsta íþróttahöll Berlín á eftir Mercedes Benz höllinni og Velodrom.
Max Schmeling höllin var opnuð 1996 og var heimavöllur körfuboltaliðsins Alba Berlin í tólf ár. Martin Hermannsson lék við góðan orðstír með Alba Berlin fyrir nokkrum árum.

Frá 2005 hefur Max Schmeling höllin verið heimavöllur Füchse Berlin, eins sterkasta handboltaliðs Þýskalands. Dagur Sigurðsson þjálfaði liðið á árunum 2009-15 og gerði það að þýskum bikarmeisturum 2014 auk þess sem það vann Evrópudeildina 2015.
Max Schmeling höllin getur mest tekið tólf þúsund áhorfendur á handboltaleikjum. Allt að fjögur þúsund manns gætu verið á undanúrslitaleikjunum á HM U-21 árs í dag.
Nokkur fjöldi Íslendinga er í Berlín og hefur verið á leikjum liðsins á mótinu til þessa. Talið er að tæplega hundrað Íslendingar gætu verið á leikjunum um helgina.
Leikur Íslands og Ungverjalands hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu á Vísi.