Það hefur vart farið fram hjá mörgum að veður hefur verið með versta móti á Suður- og Suðvesturlandi það sem af er sumri á meðan veðurguðirnir hafa verið íbúum Norður- og sérstaklega Austurlands einstaklega gjafmildir.
Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir hins vegar að ákveðinn viðsnúningur verði í veðrinu.
„Jafnvel gæti hiti á morgun, mánudag náð rúmlega 20 stigum sunnanlands þar sem best lætur. Á meðan verður mun svalara nyrðra og eystra en þar verður hitastigið meira 4 til 10 stig og benda spár að til að enn svalara verði á þriðjudag, en meir um það síðar,“ segir þar.
Veðurhorfur næstu daga:
Á þriðjudag og miðvikudag:
Norðlæg átt 5-13 m/s. Rigning eða súld norðan- og austanlands, en þurrt og bjart að mestu um landið suðvestanvert. Hiti 5 til 15 stig að deginum, mildast sunnanlands.
Á fimmtudag og föstudag:
Fremur hæg norðlæg átt. Skýjað og þurrt að kalla fyrir norðan og austan, en bjart að mestu sunnan- og vestanlands. Hlýnar lítið eitt.
Á laugardag:
Útlit fyrir suðlæga átt með dálítilli vætu vestantil á landinu, en birtir til norðan- og austanlands. Milt í veðri.