Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi hennar í fjárlaganefnd fór fram á það um helgina að nefndin komi saman í þessari viku til að taka fyrir upplýsingabeiðnir stjórnvalda vegna sölunnar á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.
Þá hefur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar og áheyrnafulltrúi í nefndinni, farið fram á að Bjarkey Olsen, formaður nefndarinnar óski eftir upplýsingum um hvort Bankasýslan hafi greitt út söluþóknanir sem ákveðið var að halda eftir þegar útboðsferlið var tekið til rannsóknar.
„[Nefndin þarf að ræða] bæði Íslandsbankamálið og Lindarhvolsmálið, sem hafa verið umfjöllunarefni í fjárlaganefnd og við höfum kallað eftir að nefndin verði kölluð saman vegna. Það er ekki komið neitt svar við því í rauninni þannig að við klórum okkur aðeins í hausnum og veltum því fyrir okkur hvort þetta sé ekki nógu mikilvægt,“ segir Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi Pírata í nefndinni.
Nefndarfundur í fyrsta lagi 10. ágúst
Bæði hann og Eyjólfur Ármannsson, fulltrúi Flokks Fólksins í nefndinni, hafi tekið undir kröfu Jóhanns um að nefndin komi saman.
Ekkert hafi þó heyrst frá öðrum nefndarmönnum sem eru í meirihluta.
„Það komu hins vegar svör út af fyrirspurnum sem við höfum verið með vegna þessara mála. Við höfum óskað eftir því að það séu sendar fyrirspurnir í gegn um nefndina. Til þess að það sé hægt að senda þær út formlega þarf að kalla saman nefndarfund. Því hefur einfaldlega verið hafnað að því leyti til að það er sagt að þetta sé ekki nægilega mikilvægt.“
Ekki má kalla nefndir þingsins saman frá 1. júlí til 10. ágúst nema brýn nauðsyn sé. Hann gerir ráð fyrir að nefndin verði kölluð saman eftir það.
„Það verður að vera. Þingskaparlögin eru þannig að það þarf að kalla saman nefndina þegar fjórðungur nefndarmanna biður um það. Eins fljótt og verða má en það er þá fyrsti dagurinn, fyrst að meirihlutanum finnst þetta ekki nógu mikilvægt, sem má og það er 10. ágúst,“ sagði Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata.
Fréttastofa hefur ekki náð tali af Bjarkey Olsen formanni fjárlaganefndar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.