Spacey hefur verið sakaður um tólf brot gegn fjórum mönnum sem eiga að hafa átt sér stað í Bretlandi milli áranna 2001 og 2013.
Fjölmargir menn hafa sakað Spacey um kynferðisbrot á undanförnum árum í kjölfar MeToo byltingarinnar svokölluðu. Í þessu tiltekna máli hafa fjórir menn sakað hann um kynferðisbrot sem eiga að hafa átt sér stað milli áranna 2001 og 2013, en þá vann Spacey í Lundúnum.
Einn mannanna sakar leikarann um rúmlega tíu brot yfir fjögurra ára tímabil. Hann segir Spacey káfað á honum og maðurinn segir að Spacey hafi einnig gripið í hendi hans og þvingað sig til að káfa á lim sínum.
Annar maður segir Spacey hafa káfað á honum og kysst hann í hans óþökk. Sá þriðji segir sömuleiðis að Spacey hafi káfað á honum. Fjórði maðurinn segir Spacey hafa byrjað sér ólyfjan og nauðgað sér.
Mennirnir fjórir eru búnir að bera vitni en þetta er í fyrsta sinn sem Spacey sest í vitnastúku í þessu máli. Dómarinn tilkynnti Spacey að hann yrði líklega lengst allra í stúkunni og að reynt yrði að hafa hlé á réttarhöldunum.
Í frétt Sky, þar sem fylgjast má með vendingum í dómsal, segir að salurinn sé fullur af blaðamönnum.
Spacey, sem er 63 ára gamall, fór um víðan völl í upphafi vitnaleiðslu sinnar þar sem hann talaði um feril sinn og það að hann hefði fyrst komið til Lundúna sem barn. Hann sagði svo að árið 2003, þegar hann var að vinna við kvikmynd í Bretlandi hafi hann fengið þá hugdettu að vinna við Old Vic leikhúsið í Lundúnum. Hann tók við sem listrænn stjórnandi leikhússins ári síðar og vann þar til ársins 2015.
Er lögmaður hans spurði hann út í ásakanir fyrsta mannsins sagði Spacey hafa verið miður sín vegna ásakananna. Hann sagðist hafa átt góðar stundir með þeim manni, sem var bílstjóri, þeir hafi daðrað við hvorn annan en aldrei sofið saman.
Leikarinn lýsti bílstjóranum sem daðrara og lýsti sjálfum sér sem miklum daðrara.
„Við skemmtum okkur vel saman,“ sagði Spacey. Hann þvertók þó fyrir að hafa snert hann gegn vilja hans.