„Þetta er ótrúlega flott skip og á því eru tvær þyrlur og einn kafbátur en við höfum pirrað okkur á því að það sé bannað að vera hér með dróna en allt í lagi að fljúga þyrlum hérna yfir allan Arnarfjörðinn,“ segir Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur við Náttúrustofu Vestfjarða, um skemmtiferðarskip sem heimsótti Dynjanda í dag, í samtali við Vísi.
Að sögn Margrétar er um að ræða skemmtiferðaskipið Scenic Eclipse II. Á vef skipafélagsins kemur fram að skipinu sé ætlað að sameina lúxus og ævintýramennsku. Bryti er um borð.
Viðskiptavinum er boðið upp á för hringinn í kringum eyjuna á tíu dögum og ef pöntuð væri ferð milli 5. og 14. ágúst kostar hún 8.120 bresk sterlingspund eða því sem nemur rúmum 1,3 milljónum íslenskra króna.

Fuglarnir urluðust
Margrét hefur ásamt kollegum verið við fornleifarannsóknir skammt frá Arnarfirði, einnig í fyrra og því orðið vitni að komu þó nokkurra skemmtiferðaskipa.
„Við erum að grafa hérna og það var stanslaust fram á kvöld þyrluflug yfir fjörðinn í dag. Flugið er ekki mjög lágt en þú getur ímyndað þér áhrifin á fuglalífið þegar þær eru að lenda á skipinu. Þetta er þyrlupallur í miðju friðlendi.“
Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að flug dróna sé með öllu óheimilt við Dynjanda. Vísað er til rannsókna á drónaflugi sem sýna að það geti haft truflandi áhrif á fuglalíf. Fram kemur að í Dynjandisvogi hafi verið skráðar 35 tegundir fugla, þar á meðal nokkrar tegundir sem eru á lista yfir ábyrgðartegundir Íslands og/eða eru á válista.

„Við urðum vitni að því þegar fuglarnir urluðust í fyrra, þá vorum við að grafa tölvuvert innar í firðinum. Það hlýtur að þurfa að taka á þessu,“ segir Margrét.
„Í fyrra hringdi leiðsögumaður frá Ísafirði í stofnunina til að spyrjast fyrir um þetta þyrluflug í friðlandinu og hann fékk þau svör að það væri það ekki óheimilt. Fólk er alveg rasandi yfir því að þetta skuli vera leyfilegt, vegna þess að allir aðrir ferja ferðamenn frá Ísafirði. Þarna ertu að leggja hóteli inn í miðju friðlandi.“