Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá VR en þar segir að með skóflustungunni hefjist langþráð uppbygging að leiguhúsnæði fyrir félagsfólk.
Reykjavíkurborg úthlutaði VR lóð við Silfratjörn í Úlfarsárdal árið 2021. Í byrjun þessa árs var skrifað undir samstarfssamning við Íslenska aðalverktaka um þróun svæðisins og í dag var skrifað undir framkvæmdasamning um verkið og fyrsta skóflustungan tekin.

Verkið er unnið undir formerkjum Blævar íbúðafélags, systurfélags íbúðarfélagsins Bjargs, sem er samstarfsverkefni ASÍ og BSRB. Bjarg mun annast umsjón með framkvæmdum og rekstri Blævar.
Byggðar verða 36 íbúðir, sem verða tveggja til fjögurra herbergja, í tveimur fjölbýlishúsum og verða þær leigðar til félagsfólks VR. Stefnt er að því að íbúðirnar verði afhentar um áramótin 2024-2025.
„Dagurinn í dag markar tímamót en mikil vinna hefur átt sér stað síðustu ár til að koma okkur á þennan stað,“ sagði Ragnar Þór við tilefnið.
Ragnar sagði Blæ ekki óhagnaðardrifið félag en það legði höfuðáherslu á hagkvæma leigu, gæði og búsetuöryggi þeirra sem leigja. Hann sagðist vonast til þess að íslenskir lífeyrissjóðir og aðrir sambærilegir langtímafjárfestar kæmu að framtíðaruppbyggingu Blævar.