„Þetta eru sem sagt sex maraþon á sex dögum,“ segir Sveinn Benedikt Rögnvaldsson, sem fylgir hópnum eftir í þessum leiðangri.
Þegar fréttastofa sló á þráðinn hjá hópnum í dag voru þeir rúmlega hálfnaðir með daginn í dag. Voru þeir þá staddir í grennd við Blönduós. „Hún ólst hérna upp, hún Inga Hrund. Við vorum að segja það að við hugsuðum til hennar á meðan við fórum í hér í gegn.“
Í dag hófst maraþonið rétt áður en komið var að Varmahlíð. Þaðan var hlaupið í gegnum Blönduós og svo þrjátíu kílómetra aukalega. Áætlað er að halda svo áfram þaðan í fyrramálið.
Eru menn ekkert að verða þreyttir?
„Þetta eru svoddan jaxlar, þeir eru vanir að hlaupa svo rosalega en það eru einhver smá eymsli hér og þar.“
Þá segir Sveinn Benedikt að hópurinn sé búinn að vera heppinn með veðrið. Það er þó líkur á að svo verði ekki alla vikuna.
„Það lítur út fyrir að vera ansi leiðinlegt veður á föstudaginn. Það verður áhugavert að sjá hvernig það fer að vera í blautum jakkafötum að hlaupa í rigningu og roki. Það gæti orðið svolítil brekka og þá eru menn orðnir þreyttir og svona.“
Vanir að hlaupa í jakkafötum
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hópurinn hleypur í jakkafötum. Þeir hafa áður tekið þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og safnað áheitum til styrktar Styrktarfélagi krabbameinsveikra barna.
Pétur Ívarsson, formaður HHHC hópsins sagði í samtali við Vísi á dögunum að nú hafi planið verið að taka þetta upp á næsta stig. Að hans sögn mun hver hlaupari hlaupa heilt maraþon á dag í kílómetrum talið. Þetta samsvarar fimm maraþonhlaupum á fimm dögum fyrir hvern hlaupara í hópnum.
„Við ætlum sem sagt að hlaupa í tveimur hópum, þannig að einn hópur hleypur tíu og hálfan kílómetra á meðan hinn hvílir sig og svo skiptum við.“
Ákveðið var að styrkja Kraft með hlaupunum því Inga Hrund nýtti þjónustu félagsins mikið á sínum tíma.