Ummælin lét Pútín falla eftir fund hans og Receps Erdogan, forseta Tyrklands, í Sotsjí við Svartahaf í dag. Erdogan hafði milligöngu um samkomulagið um kornflutning frá þremur höfnum í Úkraínu en Pútín neitaði að endurnýja það í júlí. Síðan þá hafa Rússar ítrekað ráðist á hafnir og innviði fyrir kornútflutning í Úkraínu.
Úkraína og Rússland eru einir stærstu kornútflytjendur heims og var samkomulaginu komið á til þess að fyrirbyggja matvælaskort í heiminum, sérstaklega í Afríku, Miðausturlöndum og Asíu.
Pútín vill að vestræn ríki standi við loforð um að ryðja hindrunum úr vegi útflutnings þeirra á matvælum og áburði sem hann telur að þau hafi ekki gert til þessa. Verði breyting á geti Rússland endurnýjað samninginn „á allra næstu dögum“.
Þá sagði rússneski forsetinn að stjórn hans semdi nú um að senda sex Afríkuríkjum ókeypis korn. Kornið fari í gegnum Tyrkland til vinnslu og flutnings til þróunarríkja.