Þetta staðfestir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ í samtali við RÚV.
Í sumar var greint frá því að HSÍ hefði, ásamt handknattleikssamböndum Danmerkur og Noregs sent inn óformlegt boð um að fá í sameiningu að halda heimsmeistaramótið í handbolta árið 2029 eða 2031.
Nú er þetta óformlega boð orðið að formlegu boði. HSÍ hefur, ásamt sérsamböndunum hinna landanna sent inn boð til Alþjóða handknattleikssambandsins þess efnis.
Þó er ljóst að ekki verður hægt að spila leiki á HM í handbolta hér á landi ef keppnisaðstaðan batnar ekki. Laugardalshöllin er á fjölmörgum undanþágum.
Lítið bólar á nýrri þjóðarhöll þó svo að viljayfirlýsing ríkis og borgar hafi verið undirrituð og framkvæmdanefnd sett á laggirnar.
Upphaflega stóðu vonir til þess að ný þjóðarhöll í innanhússíþróttum myndi rísa árið 2025 en í samtali við Vísi í síðasta mánuði sagði Gunnar Einarsson, formaður framkvæmdanefndar um þjóðarhöll vonast til þess að höllin verði risinn í fyrsta lagi í árslok 2026.
„Það var hægt örlítið á verkefninu á meðan að menn voru að ná áttum,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi í september. „Við vissulega stefndum á árslok 2025 en ég gæti trúað því, með því að auglýsa samkeppnina núna í október, að ný þjóðarhöll gæti risið í árslok 2026 eða upphaf ársins 2027.“
Þannig að í lok ársins 2026 gæti ný þjóðarhöll verið risin?
„Ég geri mér vonir um það en svo getur alltaf eitthvað komið upp á leiðinni. Við bíðum eftir þessari formlegu niðurstöðu ríkisins núna.“