Á vef Veðurstofunnar segir að það verði yfirleitt úrkomulítið sunnan heiða. Þá er búist við norðvestan 20 til 28 metrum á sekúndu suðaustanlands síðdegis. Hiti verður á bilinu eitt til sjö stig.
Líklegt er talið að færð muni spillast á heiðum.
Gular og appelsínugular viðvaranir eru í gildi um land allt í dag vegna hvassviðrisins. Appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Suðausturlandi til morguns. Á höfuðborgarsvæðinu er gul viðvörun í gildi frá 15 til 20 í dag.

Það lægir á vestanverðu landinu í nótt og fyrramálið, en veðrið gengur rólega niður eystra á morgun. Dálítil slydda eða snjókoma á Norður- og Austurlandi, annars yfirleitt þurrt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðvestan 15-25 á Suðaustur- og Austurlandi um morguninn, annars mun hægari. Dregur síðan talsvert úr vindi, víða 5-13 m/s síðdegis. Dálítil slydda eða snjókoma, en þurrt að kalla sunnan- og vestantil. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig.
Á fimmtudag: Norðan og norðaustan 13-20 og slydda eða snjókoma með köflum, en rigning á láglendi við suður- og austurströndina. Styttir upp sunnan heiða seinnipartinn. Hiti breytist lítið.
Á föstudag: Norðan 10-18 og él, en úrkomulítið um landið sunnanvert. Hiti kringum frostmark.
Á laugardag: Norðlæg eða breytileg átt og stöku él, en líkur á snjókomu norðvestantil. Kalt í veðri.
Á sunnudag og mánudag: Útlit fyrir suðvestanátt með vætu og hlýnandi veðri.