„Það sem við viljum fá úr þessu móti er fyrst og fremst að það nýtist okkur til framtíðar,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag. „Við erum, eins og oft hefur komið fram, á ákveðinni vegferð. Fyrir þá vegferð er þetta mót ofboðslega mikilvægt.“
Þetta er í fyrsta skipti í tólf ár sem Ísland er á meðal þátttökuþjóða á HM kvenna í handbolta. Íslenska landsliðið mun spila í D-riðli mótsins og er þar með í Frakklandi, Angóla og Slóveníu.
Riðillinn verður spilaður í Stavangri í Noregi og fer fyrsti leikur Íslands, gegn Slóveníu, fram þann 30. nóvember næstkomandi.
Ljóst er að allt í allt mun íslenska landsliðið fá um níu leiki hið minnsta á HM en á hvaða stigi mótsins það verður ræðst af úrslitum liðsins í riðlakeppninni.
„Við erum að fá þarna níu alvöru leiki. Erum að fá góðan tíma saman. Eftir þessa leiki, mótið í heild sinni, munum við fá fullt af svörum sem ég vonast til og er alveg sannfærður um að munu hjálpa okkur alveg gríðarlega í næstu verkefnum.“
Markmiðin séu áfram þau sömu og þau hafa verið hjá liðinu.
„Við förum inn í alla þessa leiki til þess að horfa aðeins á okkur, horfa á það sem við erum að gera. Horfa í frammistöðu. Við viljum að leikmenn leggi allt sitt í verkefnið og fáum svör við þeim leik sem við erum að leggja upp með.“
Reynslan sem verður til við það að spila á svona stórmóti muni nýtast vel í framhaldinu.
Það mun reyna á hópinn á margan hátt. Það mun vera krefjandi að eiga við þessi lið. Það mun vera, á einhverjum tímapunkti, erfitt. Fyrir okkur er það ágætis skóli sem við höfum gott af því að fá. “