Frá þessu er greint á vefsíðu IFK Norrköping í kvöld, fimmtudag. Þar segir að Ari Freyr muni taka við sem svokallaður „transitional“ þjálfari en sá á að hjálpa ungum leikmönnum að fóta sig í aðalliðinu.
„Það er spennandi verkefni og auðveldaði ákvörðunina. Þetta er auðvitað leiðinlegt en spennandi á sama tíma. Ég hlakka til þess sem næstu ár munu bera í skauti sér,“ segir hinn 36 ára gamli Ari Freyr.
Nära två decennier på elitnivå och en av Islands mest meriterade landslagsspelare någonsin.
— IFK Norrköping (@ifknorrkoping) November 2, 2023
Ari Skúlason avslutar spelarkarriären och blir övergångstränare.
Läs mer på https://t.co/F2iAbxNcHj.
#ifknorrköping pic.twitter.com/vPt8qFdrKF
„Að spila fyrir framan stuðningsmennina, búningsklefans. Þau sem hafa aldrei spilað fótbolta eða aldrei verið í búningsklefa skilja ekki andrúmsloftið þar, það er einstakt,“ sagði Ari Freyr aðspurður hvers hann muni sakna mest.
„Þetta snýst um að hjálpa þeim sem eru að taka skrefið upp í aðalliðið sem og þeim sem eru þar nú þegar er kemur að aukaæfingum. Snýst um að aðstoða þá innan vallar sem utan,“ sagði Ari Freyr um nýja starfið.
Ari Freyr hefur spilað með IFK Norrköping síðan 2021 en hefur komið víða við á ferlinum. Hann samdi ungur að árum við Heerenveen í Hollandi. Kom síðan heim og spilaði með Val, uppeldisfélagi sínu, áður en hann gekk í raðir BK Häcken í Svíþjóð.
Þaðan lá leiðin til GIF Sundsvall, OB í Danmörku og svo Belgíu þar sem hann spilaði með Lokeren og Oostende áður en hann fór til Norrköping. Þá spilaði hann 83 A-landsleiki og var stór hluti af gullaldarliði Íslands sem fór á EM í Frakklandi og HM í Rússlandi.