Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég er frekar snemma á ferðinni, er yfirleitt kominn af stað vel fyrir sjö.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég get nú ekki sagt að það séu miklar gæðastundir á virkum dögum. Ég skanna helstu vefmiðla en ég hef vanið mig á með árunum að bíða með lestur tölvupósta þangað til ég er kominn á skrifstofuna.
Ég ýti svo aðeins við krökkunum okkar þremur með misgóðum árangri.
Á leiðinni í vinnuna leita símtölin oft til Möltu en þar búa foreldrar mínir og bróðir minn ásamt fjölskyldu hans. Ég er arfaslakur að fara í ræktina en nýlega erum við æskuvinirnir farnir að spila padel í Tennishöllinni í Kópavogi á miðvikudagsmorgnum og ég held að það fyrirkomulag sé komið til að vera.
Um helgar snýst lífið um að koma krökkunum á æfingarnar sínar í fótbolta, körfubolta og frjálsum íþróttum, og svo lífgar nýjasti fjölskyldumeðlimurinn okkar heldur betur upp á morgnana, hvolpurinn Katla Dís.“
Á skalanum 1-10, hversu góður kokkur ertu?
Ég gef mér 8,5 í einkunn þegar ég er að fylgja uppskriftunum í Eldum rétt, en við höfum mikið verið að vinna með það á undanförnum árum.
Ef þess nýtur ekki við þá hrapar einkunnin í eldhúsinu.
Krakkarnir kvarta mikið yfir matseldinni minni, sérstaklega þegar konan mín er erlendis og ég fæ reglulega að heyra það hvað pabbar vina þeirra séu miklir gæðakokkar.
Reyndar er ég alltaf að verða betri að elda rjúpur á jólunum, sem eru eldaðar til hliðar við annan jólamat, en aðrir í fjölskyldunni snerta ekki ennþá við þeim. Það breytist örugglega í ár.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Verkefnin eru sem betur fer alltaf mjög fjölbreytt og skemmtileg. Um helmingur af starfinu felst í að vinna í málum fyrir viðskiptavini og hinn helmingurinn fer í að vinna að málefnum stofunnar. Í báðum tilfellum er ég heppinn að hafa frábært samstarfsfólk og hef ég unnið með mörgum í að verða tuttugu ár. Svo er líka ánægjulegt hversu mörgum viðskiptavinum ég hef náð að fylgja í jafn langan tíma.
Það er mikið um að vera þessa dagana í kaupum og sölum fyrirtækja, endurfjármögnunum og endurskipulagningum. Svo er sérstaklega gaman að sjá hversu mikil gróska er í nýsköpun um þessar mundir, það virðist vera til endalaust mikið af fólki á Íslandi með góðar hugmyndir og drifkraft til þess að fylgja þeim eftir. Það hjálpar eflaust líka að það er frábært fólk til staðar í íslensku sjóðunum sem er að fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum, og smæðin á Íslandi er örugglega styrkleiki í þessu umhverfi.
Oft eiga stærstu verkefnin það til að taka yfir líf manns og það er búið að vera mikið af þeim á undanförnum tveimur árum, t.d. sölurnar á Kerecis, Mílu og Tempo, en þar getum við nýtt stærð og sérfræðiþekkingu stofunnar, ásamt því að innvikla lögfræðingana okkar á London skrifstofunni okkar. Hins vegar eiga minni verkefnin það til að vera meira krefjandi og það eru oftast þau sem halda manni vakandi á næturnar.
Gagnvart stofunni sjálfri þá eru verkefnin afar fjölbreytileg. Þessa dagana er ég meðal annars að undirbúa heimsókn frá framkvæmdastjórum frá stærstu lögmannsstofunum á Norðurlöndunum sem eru að koma til okkar eftir áramót, en þessir fundir eiga sér stað árlega og eru mjög gagnlegir.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég sótti tímastjórnunarnámskeið fyrir nokkrum árum og það var margt þar sem ég hef reynt að tileinka mér.
Til dæmis kom þar fram að ef maður er A-týpa þá er betra að bóka fundi eftir hádegi, maður eigi að reyna að svara einföldum tölvupóstum fljótt og að skrifa lista í upphafi hvers vinnudags hvað eigi að komast yfir þann daginn.
Þessu hef ég nokkurn veginn fylgt og svo er ég með lengri tíma verkefnalista til þess að reyna að komast hjá því að eitthvað falli milli skips og bryggju.
Og þegar mikið er um að vera á ég það til að senda mér tölvupósta á kvöldin til minnis um hvað ég þurfi að koma í verk daginn eftir.
Þetta hljómar eflaust allt mjög skipulagt en ég held að maður verði alltaf leitandi að einhverju betra.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég fer oftast skammarlega snemma að sofa á kvöldin, oft um tíuleytið, og þá alltaf undir einhverjum hlaðvarpsþáttum. Mæli mjög með History Hit og In our time hjá BBC Sounds.“