Wilder og Joshua keppa báðir í Sádi-Arabíu um helgina. Ef þeir vinna báðir gætu þeir mæst á næsta ári. Wilder vill þó meina að Joshua sé ekkert sérstaklega spenntur fyrir því.
„Ég vil ekki segja að hann sé hundrað prósent hræddur en held að hann sé 75 prósent hræddur,“ sagði Wilder.
„Þetta snýst ekki um peninga. Þetta snýst um hugrekkið að stíga inn í hringinn. Ég kenni Joshua ekki bara um heldur hans fólki. Mér finnst Joshua ekki bara hræddur við mig heldur líka umboðsmaðurinn hans. Þess vegna hefur bardaginn ekki átt sér stað.“
Joshua segir að þetta sé rangt, hann vilji mæta Wilder en kjósi helst að berjast um IBF titilinn fyrst.
Um helgina mætir Joshua Svíanum Otto Wallin á meðan Wilder etur kappi við hinn nýsjálenska Joseph Parker.