Íslenska liðið endaði í tíunda sæti á Evrópumótinu í Þýskalandi og komst þar með ekki í umspil um sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar. Næsta verkefni liðsins er að tryggja sig inn á HM 2025.
Bjarki skoraði 21 mark í leikjunum sjö en þar af komu fimmtán þeirra í leikjunum á móti Serbíu (7 mörk úr 9 skotum) og Króatíu (8 úr 11 skotum). Bjarki var aðeins með sex mörk í hinum fjórum leikjunum. Hann nýtti aðeins 9 af 20 skotum sínum úr vinstra horninu á mótinu.
Bjarki er mjög vonsvikinn með sína frammistöðu eins og það sést vel á færslu hans á samfélagsmiðlum.
„Best að segja það eins og það er. Aldrei á mínum handboltaferli verið jafn svekktur og sár. Bæði að við sem lið náðum ekki okkar markmiðum og eins með mína frammistöðu,“ skrifaði Bjarki.
„Það mun langur tími fara í að sætta sig við það. Það sem stendur upp úr er stuðningurinn sem var í heimsklassa,“ skrifaði Bjarki.