Á vef Veðurstofunnar segir að það berist heldur hlýrri loftmassi yfir landið heldur en verið hefur og úrkoman verði þá á mismunandi formi.
„Víðast hvar verður hún snjókoma eða slydda, en rigning með suðurströndinni og á Suðausturlandi. Hins vegar er útlit fyrir litla eða enga úrkomu norðaustantil á landinu. Hiti í dag verður um frostmark eða rétt yfir því.
Á morgun snýst síðan aftur í suðvestanátt með éljagangi, en bjartviðri í norðausturfjórðungi landins. Það frystir um allt land. Áfram vestlæg átt á miðvikudag með éljum og vetrarlegu veðri nokkuð víða,“ segir á vef Veðurstofunar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Suðvestan 8-15 m/s og él, en bjartviðri norðaustantil á landinu. Frost 0 til 5 stig.
Á miðvikudag: Vestlæg eða breytileg átt og él í flestum landshlutum. Frost 2 til 10 stig.
Á fimmtudag: Suðvestanátt og él eða slydduél, en þurrt austanlands. Hiti kringum frostmark.
Á föstudag: Suðlæg eða breytileg átt og rigning, slydda eða snjókoma víða um land. Hiti um og yfir frostmarki. Kólnar síðdegis með stífri suðvestanátt og éljagangi, en léttir til um landið austanvert.
Á laugardag: Norðanátt með snjókomu á norðanverðu landinu, en vestlægari og él sunnantil. Frost 2 til 8 stig.
Á sunnudag: Norðanátt og él, en bjartviðri sunnan heiða. Kalt í veðri.