Lið Eupen var í jafnt Charleroi að stigum í fallsæti belgísku deildarinnar fyrir leik liðanna í dag. Leikið var á heimavelli Charleroi og voru þeir Alfreð Finnbogason og Guðlaugur Victor Pálsson báðir í byrjunarliði Eupen.
Aðeins eitt mark var skorað í leiknum í dag. Það gerðu heimamenn í Charleroi á 68. mínútu og lyftu sér þar með upp úr fallsæti deildarinnar. Guðlaugur Victor lék allan leikinn í dag en Alfreð fór af velli á 65. mínútu.
Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði Leuven sem mætti Genk á heimavelli. Gestirnir komust yfir á 55. mínútu eftir markalausan fyrri hálfleik en Jón Dagur var tekinn af velli tíu mínútum eftir markið.
Heimamenn sneru taflinu hins vegar við á síðustu tíu mínútum leiksins og tryggðu sér góðan 2-1 sigur. Með sigrinum jafnar Leuven lið Eupen að stigum en bæði liðin eru með 21 stig í 13. og 14. sæti deildarinnar. Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Kortrijk eru í 16. og neðsta sæti deildarinnar með 15 stig.
Í Grikklandi féllu Samúel Ari Friðjónsson og Guðmundur Þórarinsson báðir úr leik í grísku bikarkeppninni eftir töp með liðum sínum. Guðmundur var í byrjunarliði OFI Creta sem tapaði 3-1 gegn Panetolikos og þá kom Samúel Kári inn í uppbótartíma í 2-0 tapi Atromitos gegn Panahinaikos.