HK og ÍR höfðu deildarskipti í lok síðasta tímabils þegar ÍR vann sér inn sæti í Olís-deildinni, en HK féll niður í Grill 66-deildina.
HK-ingar skoruðu fyrsta mark leiksins í kvöld, en það var hins vegar í eina skiptið sem liðið hafði forystu. ÍR-ingar náðu fljótt fjögurra marka forskoti og leiddu með sex mörkum þegar flautað var til hálfleiks, staðan 8-14.
Í síðari hálfleik var svo aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda. Gestirnir í ÍR náðu tíu marka forskoti í stöðunni 11-21 og héldu því út leikinn. Lokatölur 21-31, ÍR í vil, og ÍR er þar með á leið í undanúrslit Powerade-bikars kvenna á kostnað HK.