Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka. Þar er bent á að hagnaðurinn sé álíka mikill og árið á undan en þá var hann 25,9 milljarðar króna.
Til samanburðar má nefna að í síðustu viku var greint frá því að hagnaður Landsbankans væri 33,2 milljarðar króna.
Í tilkynningunni kemur eftirfarandi fram:
- Hagnaður Arion banka var 25.737 m.kr. á árinu, samanborið við 25.958 m.kr. á árinu 2022.
- Arðsemi eiginfjár var 13,6 prósent, samanborið við 14,1 prósent 2022.
- Hagnaður á hlut var 17,8 krónur, samanborið við 17,4 2022.
- Hreinn vaxtamunur var 3,1 prósent, óbreyttur frá árinu 2022.
- Góður fjórðungur í þóknanastarfsemi og námu heildarþóknanir 16,4 mö.kr.
- Kjarnatekjur, þ.e. hreinar vaxta-, þóknana- og tryggingatekjur (án rekstrarkostnaðar tryggingastarfseminnar), jukust um 7 prósent í samanburði árið 2022.
- Kostnaður sem hlutfall af kjarnatekjum var 44,7 prósent á árinu, samanborið við 45,0 prósent á árinu 2022.
- Efnahagsreikningur bankans hefur stækkað um 4,1 prósent frá árslokum 2022.
- Lán til viðskiptavina hafa aukist um 6,3 prósent á árinu. Hækkun á lánum til fyrirtækja var 8,2 prósent og 4,6 prósent á lánum til einstaklinga, einkum íbúðalán.
- Innlán frá viðskiptavinum jukust um 4,9% á árinu.
- Eiginfjárhlutfall bankans var 24,1% og hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 var 19,7% í lok desember.
- Stjórn bankans leggur til að um 13 milljarða króna arður verði greiddur, að teknu tilliti til eigin bréfa bankans, sem samsvarar 9,0 krónum á hlut.
Í tilkynningunni er haft eftir Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, að það sem hafi einkennt árið 2023 hafi verið barátta við háa verðbólgu og jarðhræringarnar á Reykjanesskaga.
„Sú erfiða staða er uppi að íbúar Grindavíkur vita ekki hvenær, eða hvort, hægt verður að flytjast aftur til bæjarins. Vegna óvissunnar ákváðum við ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum í nóvembermánuði að frysta íbúðalán vegna húsnæðis í Grindavík í þrjá mánuði og fella niður vexti og verðbætur lánanna á tímabilinu. Snemma árs 2024 framlengdum við úrræðið í þrjá mánuði, eða til aprílloka. Þannig viljum við leggja okkar af mörkum til að styðja við bakið á íbúum Grindavíkur,“ segir Benedikt.
„Afkoma Arion samstæðunnar á árinu 2023 var góð og í samræmi við markmið okkar. Þriðja árið í röð nást öll helstu fjárhagsmarkmið ársins. Þannig einkennist starfsemi okkar af stöðugleika sem meðal annars byggist á einstöku og fjölbreyttu þjónustuframboði. Í raun er það svo að ekkert fjármálafyrirtæki hér á landi býður viðskiptavinum sínum jafn fjölbreytta fjármálaþjónustu og Arion samstæðan.“
Stjórnarformaður kveður
Brynjólfur Bjarnason, sem var fyrst kjörinn í stjórn Arion banka á hluthafafundi í nóvember 2014 og kjörinn formaður stjórnar í mars 2019, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.
„Eftir að hafa setið í áratug í stjórn Arion banka og þar af gegnt stjórnarformennsku síðastliðin fimm ár, tel ég rétt að láta gott heita. Það hefur verið afar ánægjulegt að taka þátt í vegferð bankans sem hefur tekið miklum breytingum á þessum tíu árum,“ er haft eftir Brynjólfi sem segist sannfærður um að „Arion sé afar vel í stakk búinn að takast á við áskoranir framtíðarinnar. Ég þakka hluthöfum bankans fyrir traustið. Starfsfólki Arion, stjórn og viðskiptavinum þakka ég árangursríkt samstarf.“