Mikið hefur verið rætt og ritað um vistaskipti Eiðs Arons en samningi hans við ÍBV var rift á dögunum. Skömmu síðar var hann mættur í æfingaferð með Vestra og í gær, sunnudag, var staðfest að hann hefði samið við liðið.
Hann var svo mættur í hjarta varnarinnar þegar Vestri sótti Gróttu heim í lokaleik liðanna í Lengjubikarnum. Það verður seint sagt að Eiður Aron hafi fengið óskabyrjun í búningi Vestra en liðið steinlá 3-0, öll mörkin komu í fyrri hálfleik og hann nældi sér í gult spjald.
KR-ingurinn fyrrverandi Grímur Ingi Jakobsson kom Gróttu yfir eftir tíu mínútur og aðeins fimm mínútum síðar hafði Tareq Shihab tvöfaldaði forystu heimamanna. Eiður Aron fékk gult spjald á 31. mínútu og í uppbótartíma bætti Grímur Ingi við öðru marki sínu og þriðja marki Gróttu.

Jeppe Gertsen fékk rautt spjald í liði Vestra á 52. mínútu og gestirnir manni færri það sem eftir lifði leiks. Það nýttu heimamenn sér þó ekki og leiknum lauk með 3-0 sigri Gróttu.
Þetta var fyrsti sigur Gróttu í riðli 1 í A-deild Lengjubikarsins. Liðið endar í 5. sæti með stigi meira en botnlið Vestra sem lýkur keppni með tvö stig.