Páll Óskar greinir frá þessu á Facebook. „Við turtildúfurnar giftum okkur heima í stofu kl. 10.00 í gærmorgun 27. mars. Besti dagur lífs okkar, fullur af ást og skilyrðislausum kærleika,“ skrifar hann á Facebook.
Hann þakkar Brynhildi Björnsdóttur vinkonu sinni og athafnastjóra hjá Siðmennt fyrir að hafa leitt athöfnina. Þá heitir hann því að endurtaka leikinn síðar og bjóða öllum sem þeir þekkja í brúðkaupsveislu.
„Takk, Edgar Antonio Lucena Angarita, ástin í lífi mínu og núna maðurinn minn. Allir sem þekkja mig segja það sama: þau hafa aldrei séð mig svona hamingjusaman í lífinu.
Ég ætla að vera besti eiginmaður í heimi, og akkúrat þegar þú heldur að ég geti ekki orðið betri fyrir þig, þá mun ég halda áfram að koma þér á óvart, bæta mig meira og verða bara betri,“ skrifar Páll Óskar.
Páll Óskar og Edgar kynntust í janúar í fyrra í gegnum stefnumótaforritið Gindr, sem má segja að sé Tinder fyrir homma. Í samtali við Vísi nokkrum mánuðum síðar sagði Páll Óskar allt í ferlinu hafa komið sér á óvart.
„Mér raðbrá. Ég var svo ofsalega litaður af ákveðnum hugmyndum sem ég fékk að láni frá gömlum bíómyndum hvernig allt eigi að ganga fyrir sig en fattaði svo að ég er alinn upp á mannskemmandi ranghugmyndum.
Á sama tíma og hann tilkynnti um sambandið gaf hann út lagið Galið gott, sem fjallar um Edgar og ástina. Þá fór hann á dýptina og ræddi listina, stefnumótaforritið Grindr, ástarsorg og fleira í viðtalinu, sem má nálgast hér að neðan.