Þetta var sjöunda deildarmark Kristians á leiktíðinni en það fyrsta síðan hann skoraði í sigri á Heracles Almelo í janúar.
Kristian var búinn að spila sjö deildarleiki í röð með Ajax án þess að skora.
Kristian kom Ajax í 1-0 strax á tólftu mínútu leiksins eftir að hafa fengið stoðsendingu frá Benjamin Tahirovic. Ajax bætti síðan við öðru marki tólf mínútum síðar þegar Chuba Akpom skoraði.
Zwolle minnkaði muninn á 72. mínútu með marki frá Filip Krastev og skoraði síðan aftur sjö mínútum síðar en Varsjáin dæmdi markið af vegna rangstöðu.
Chuba Akpom skoraði síðan sitt annað mark í leiknum á 84. mínútu og innsiglaði sigur Ajax liðsins.
Annað mark var síðan dæmt af Zwolle mönnum á lokamínútum vegna rangstöðu. Zwolle skoraði því jafnmörg mörk og Ajax en aðeins eitt þeirra fékk að standa.
Kristian er nú kominn með sjö mörk og eina stoðsendingu í 23 deildarleikjum Ajax á leiktíðinni. Hann skoraði einnig þrjú mörk með unglingaliðinu í B-deildinni og er þvi með tíu deildarmörk á leiktíðinni.