„Friður er aldrei búinn til með vopnum, heldur með höndum sem teygja sig fram og opnum hjörtum,“ sagði Frans Páfi sem leiddi messu í Vatíkaninu í dag. Þúsundir fylgdust með á Péturstorgi í Vatíkaninu.
Páfinn er orðinn 87 ára gamall og hefur átt við einhver heilsufarsvandamál að stríða. Sökum þess hefur dagskráin í Páfagarði þessa páskana ekki verið samkvæmt venju. Á föstudaginn langa sat hann yfir messu en sleppti annarri dagskrá. Í gær, laugardag, tók hann þátt í tveggja tíma messu.
„Ég biðla þess enn einu sinni að hjálpargögnum verði tryggð leið inn á Gasa, og kalla enn einu sinni eftir því að gíslum sem hafa verið í haldi frá 7. október verði sleppt úr haldi og eftir tafarlausu vopnahléi á Gasa,“ sagði páfinn í ávarpi sínu.
Hann sagði áhrif stríðsins koma fram í þjáningum almennra borgara, sérstaklega barna.
„Stríð er alltaf fjarstæða og ósigur,“ sagði hann og að börnin í Gasa væru búin að tapa brosi sínu.
Hann kallaði einnig eftir því að alþjóðalög og reglur um stríð séu virt og að fangaskipti færu fram í Úkraínu og Rússlandi.