Darwin Davis virtist vera að tryggja Þórsurum sigurinn þegar hann lagði boltann ofan í og kom Þór tveimur stigum yfir, 95-97, og aðeins 0,9 sekúndur eftir á klukkunni en dramatíkinni lauk ekki þar.
Njarðvíkingar tóku leikhlé og allir reiknuðu með að boltanum yrði hent inn í teig þar sem Mario Matasovic myndi reyna að blaka honum ofan í. En þess í stað barst boltinn út á hinn unga Þorvald Orra Árnason sem stóð lengst fyrir utan og hann varð einfaldlega að láta vaða.
Mögulega fór klukkan sekúndubroti eða tveimur of seint af stað en það verður einfaldlega að liggja á milli hluta. Skotið var löglegt og rataði beinustu leið ofan í. Njarðvíkingar eru á leið í 4-liða úrslit og mæta þar Valsmönnum.
Þessa ótrúlegu senu má sjá í heild hér að neðan.