Haukar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörk leiksins. Vitandi að tap myndi þýða sumarfrí þá svaraði Fram og komst í kjölfarið yfir. Það dugði þó skammt, Haukar náðu yfirhöndinni og héldu henni út fyrri hálfleik. Staðan þá 11-9 gestunum úr Hafnafirði í vil.
Í síðari hálfleik voru Haukar með völdin nær allan tímann og lengi vel ljóst í hvað stefndi. Lokatölur 23-27 og Haukakonur komnar í úrslit.
Elín Klara Þorkelsdóttir var eins og svo oft áður mögnuð í liði Hauka. Hún skoraði 10 mörk. Þar á eftir voru Inga Dís Jóhannsdóttir og Sara Katrín Gunnarsdóttir með 4 mörk hvor. Í markinu varði Margrét Einarsdóttir 11 skot.
Hjá Fram var Kristrún Steinþórsdóttir markahæst með 9 mörk. Þær Ingunn María Brynjarsdóttir og Andrea Gunnlaugsdóttir vörðu samtals 7 skot í markinu.