Stofnfundur “Öruggara Suðurland” fór fram í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn þar sem lögreglustjórinn á Suðurlandi, ásamt sýslumanni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands, auk allra sveitarstjóra eða bæjarstjóra á Suðurlandi undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um verkefnið.
„Ég vil að þetta verkefni skili bættum ferlum, aukinni skilvirkni og betri þjónustu við þolendur og gerendur ofbeldis. Það er mikill áhugi og maður fann vel kraftinn í salnum á stofnfundinum”, segir Arndís Soffía Sigurðardóttir, aðallögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi.
En hvað með almenning á Suðurlandi, getur hann eitthvað gert í þessu verkefni?
„Já, almenningur getur alltaf haft augun opin og tilkynnt til viðbragðsaðila ef að það er grunur um að fólk búi við ofbeldi og ég tala nú ekki um börn, að tilkynna á rétta staði,” segir Arndís Soffía.

Og lögreglustjórinn bindur miklar vonir við verkefnið.
„Tilgangurinn er að kerfin okkar öll tali saman og að við vinnum, sem ein heild í kerfinu allir þessir aðilar, það er gríðarlega mikilvægt. Ég ætla að vona að verkefnið skili „Öruggara Suðurlandi“, það er markmiðið og við höfum óbilandi trú á því að okkur muni takast að ná því,“ segir Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi.
Þannig að þú ert alsæll með þetta?
„Já, mjög ánægður, stofndagur verkefnisins var góður dagur“, segir Grímur.
