Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í kvöld megi búast við norðvestan hvassviðri eða stormi á þeim slóðum með slyddu eða snjókomu. Hiti á landinu í dag verður á bilinu tvö til tíu stig og verður mildast syðst.
„Næstu daga er svo útlit fyrir norðan óveður á landinu með kalsa úrkomu norðan- og austanlands, ýmist rigningu, slyddu eða snjókomu, en lengst af úrkomulítið sunnantil. Samkvæmt nýjustu spám mun veðrið standa linnulítið fram á aðfaranótt föstudags, en skánar þá talsvert gangi spár eftir.
Gefnar hafa verið út viðvaranir og þeir sem eiga eitthvað undir veðri eru hvattir til að kynna sér þær og fylgjast vel með veðurspám og veðurathugunum,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Þannig taka appelsínugular viðvaranir gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum, Suðausturlandi og Miðhálendi vegna hríðarveðurs síðdegis í dag. Gular viðvaranir taka vildi annars staðar á landinu seint í kvöld eða í fyrramálið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Norðan og norðvestan 15-23 m/s. Slydda eða snjókoma á Norður- og Austurlandi, en rigning nærri sjávarmáli. Hiti 0 til 4 stig. Þurrt að kalla sunnantil og við vesturströndina með hita að 9 stigum yfir daginn.
Á miðvikudag: Norðvestan og norðan 13-20, hvassast suðaustantil. Víða rigning, slydda eða snjókoma, en úrkomulítið sunnanlands. Hiti breytist lítið.
Á fimmtudag: Norðvestan og norðan hvassviðri eða stormur. Úrkomulítið sunnantil og við vesturströndina, annars slydda, rigning eða snjókoma. Mikil úrkoma á Norðurlandi. Hiti 0 til 9 stig, mildast suðaustanlands.
Á föstudag: Norðan 8-15 og skúrir eða él, en þurrt um landið sunnanvert. Hiti 2 til 12 stig, mildast syðst
Á laugardag: Breytileg átt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt á Suður- og Vesturlandi fram eftir degi. Hiti breytist lítið.
Á sunnudag: Suðaustanátt og rigning, en þurrt að kalla norðan- og austanlands. Hlýnar í veðri.