Samhliða forsetakosningum síðustu helgi var lögð skoðanakönnun fyrir íbúa Ásahrepps, þar sem spurt var hvort þeim hugnaðist að sameina sveitarfélagið við Rangárþing ytra eða eystra. Af 170 íbúum á kjörskrá tóku 120 þátt, en tæp 56 prósent íbúa sögðu nei, en 43 prósent já. Hreppsnefndin samþykkti engu að síður á fundi í gær að senda erindi til sveitarfélaganna með ósk um sameiningarviðræður.
Sveitarstjóri Ásahrepps segir litið svo á að ekki sé um marktækan mun að ræða.
„Nú er þá bara næst að kanna hvort hinar sveitarstjórnirnar séu tilbúnar til þess að fara í slíkar viðræður. Nú eiga þeir bara eftir að svara. Það er verið að opna þarna bókina og verið að spyrja, eru menn klárir í að taka þessa umræðu,“ segir Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri í Ásahreppi.
Byggðasamlög þynni út lýðræðið
Ef mögulegar viðræður skiluðu jákvæðri niðurstöðu um sameiningu yrði lokaorðið þó alltaf í höndum íbúa.
„Samkvæmt lögum þá enda formlegar viðræður með því að íbúar allra sveitarfélaga sem taka þátt í þessum sameiningarviðræðum, það þarf að vera samþykkt í öllum sveitarfélögum.“
Valtýr er ráðinn sveitarstjóri og hefur ekki atkvæðisrétt í hreppsnefndinni. Hann segist sjálfur hlynntur stækkun sveitarfélaga þar sem það eigi við, og telur rekstur sveitarfélaga í byggðasamlögum í of miklum mæli ekki endilega heppilegasta fyrirkomulagið.
„Það er allt öðruvísi heldur en ef rekstur þessara málaflokka heyrir bara beint undir sveitarstjórn, það er svolítið annar veruleiki. Það er svolítil útþynning á lýðræðinu að vera með stærstan hluta af sínum rekstri í byggðasamlögum.“