Fyrirhuguð efnisvinnsla fyrirtækisins Heidelberg í Ölfusi hefur reynst afar umdeild - og hefur meðal annars valdið deilum innan bæjarstjórnarinnar í Ölfusi. Vestmannaeyjabær skilaði nýverið umsögn um áformin og gerir þar alvarlegar athugasemdir við þau, eins og Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum útlistar nú.
„Vegna þess að allir okkar innviðir eru undir, vatn rafmagn ljósleiðari, þetta eru hrygningarsvæði mjög verðmætra stofna, svo sem loðnu og þorsks, og svo er þetta auðvitað okkar samgönguæð, Landeyjahöfn er lífæð Vestmannaeyja.“
Íris segir svæðið sem fyrirtækið vilji vinna jarðveg úr á hafsbotni gríðarstórt. Ekkert í gögnum fyrirtækisins tryggi það að áformin ógni ekki innviðum og hrygningarsvæðum. Innt eftir því hvaða áhrif bæjaryfirvöld óttist nákvæmlega bendir Íris á að við vinnslu sem þessa séu gerðar breytingar á hafsbotninum. Hún hræðist til dæmis mögulegar skemmdir á rafstrengjum sem þar liggja og vísar til þess að ekki sé lengra síðan en í janúar í fyrra að einn slíkur skemmdist.
„Hann er úti í næstum sjö mánuði og að hluta til var keyrt hér á olíu, þannig að það er náttúrulega gríðarmikið undir og gríðarlega kostnaðarsamt. Svo er líka ekki vitað hvaða áhrif þetta hefur á ströndina, hvaða áhrif þetta hefur á höfnina, siglingaleiðina, því þetta er svo ofboðslega mikið magn sem er verið að taka.“
Vestmannaeyjabær hefur áður veitt umsögn í málinu, sem var svarað, og umsögnin nú er svar við því svari.
„Þeir voru með greinargóð svör að mörgu leyti en þeir róuðu okkur ekki, áhyggjurnar eru enn til staðar, og þeir segja það sjálfir að þeir geti ekki tryggt að þetta hafi engar afleiðingar og undir þetta taka Landsnet, HS veitur, Hafró, risastórir aðilar sem hafa líka áhyggjur af innviðunum og því sem er þarna undir.“
Íris segir að talsvert betri ramma þurfi utan um verkefnið, fái það fram að ganga. Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa jafnframt óskað eftir fundi með Skipulagsstofnun til að fara betur yfir mögulegar afleiðingar fyrir innviði.