Fyrr í vikunni var greint frá því að kærunefnd útlendingamála hefði vísað máli hans frá og neitað honum endanlega um vernd hér á landi.

Yazan glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne. Mohsen og Feryal Aburajab Tamimi, foreldrar hans, komu með Yazan til Íslands fyrir tæplega ári síðan. Fjölskyldan er frá Hebron á Vesturbakkanum í Palestínu og flúði vegna versnandi ástands þar í landi.
Heilbrigðisstofnanir Palestínu hafa orðið að líða talsverðar skerðingar á þjónustu vegna stríðsástandsins. Yazan þarf á stöðugri læknisaðstoð að halda til að hann geti lifað bærilegu lífi.
„Vanhæf ríkisstjórn, ómennsk ríkisstjórn“ er meðal þess sem heyra má fundargesti kyrja á Austurvelli.

Albert Lúðvígsson, lögmaður fjölskyldunnar, hefur óskað eftir því að Kærunefnd útlendingamála tæki mál hans aftur upp. Í samtali við fréttastofu í maí sagði hann að nauðsynleg gögn um áhrif brottflutnings á heilsu Yazans hafi ekki verið lögð fyrir í málinu þegar það var fyrst tekið fyrir.
„Viljum við í alvöru vera ábyrg fyrir því að stytta líf 11 ára drengs, sem er nú þegar verulega stytt?“ segir meðal annars í fundarboði samtakanna No borders.