„Tilgangurinn er sá að koma grásleppunni í stýringu, fyrst og fremst snýst þetta um fyrirsjáanleika þeirra sem veiðarnar stunda. Það hefur verið dagakerfi hingað til, dögum hefur fækkað og fjölgað eftir því hvernig gengið hefur að veiða,“ segir Þórarinn.
Fyrirsjáanleikinn hafi einfaldlega ekki verið nógu mikill. Fyrir kvótasetninguna hafi verið árleg ósvæðisbundin heildarúthlutun veiðiheimilda til grásleppu. „Árið 2020 veiddist gríðarlega vel fyrir norðan, og þegar grásleppusjómenn ætluðu að fara af stað á Vesturlandi, var búið að veiða það sem mátti veiða af grásleppu fyrir norðan,“ segir Þórarinn. Auðvitað séu þó skiptar skoðanir á því hvort kvótasetning sé æskileg eða ekki.

Kvótinn svæðisbundinn
Þórarinn segir að grásleppusjómenn hafi margir hverjir lengi kallað eftir því að þetta yrði gert. Þessi vegferð kvótasetningarinnar hafi hafist í ráðherratíð Kristjáns Þórs Júlíussonar, og loks hafi málið verið klárað í vor.
„Fyrst og fremst erum við að fjalla hérna um fyrirsjáanleika. Þeir sem að þetta stunda viti hvað þeir geta veitt, og séu ekki endilega bundnir dögum og slíkt,“ segir Þórarinn. Kvótinn sé bundinn við svæði, og framsalsheimildir séu einnig svæðisbundnar. Þetta komi sér vel, þar sem grásleppan gengur hring í kringum landið, og sé fyrr á ferðinni fyrir norðan. Grásleppusjómenn fyrir vestan verði þá með kvóta, sama hvernig veiðist fyrir norðan.

Réttmætar áhyggjur af því að kvótinn safnist á fárra hendur
Þórarinn segir að áhyggjur þeirra sem halda að kvótaþakið verði smám saman hækkað, og að þetta endi þannig að grásleppukvótinn safnist á hendur fárra fjársterkra aðila, séu réttmætar. „Við reynum að girða fyrir það með því að setja hámark, 1,5 prósent kvótaþak, sem er þar að auki svæðisbundið,“ segir Þórarinn.
„Eins og þróunin hefur verið undanfarin ár i þessum veiðum, þá hefur bátunum farið fækkandi, því það hefur ekki verið afkoma í veiðinni undanfarin ár. Þeim hefur fækkað alveg ótrúlega mikið á stuttum tíma. Við erum að aðstoða þá sem hafa verið að stunda þessar veiðar, það verði meiri arðsemi og fyrirsjáanleiki í greininni,“ segir Þórarinn. Tíminn verði svo að leiða það í ljós hvort það gangi eftir.
Fimm prósent kvótans til nýliða
Eitt mikilvægt atriði í frumvarpinu er nýliðunarpotturinn, segir Þórarinn. Ráðherra úthluti 5,3 prósentum af heildarkvótanum til nýliða ár hvert. Í dag séu nokkrir nýliðar nýbyrjaðir að róa, og taka þurfi tillit til þeirra við úthlutun. „Með þessu erum við að reyna mæta þeim áhyggjum að þetta tapist á fárra hendur og bara fjársterkir aðilar geti verslað sér aflaheimildir,“ segir Þórarinn.
Hann segir að hugsunin sé alls ekki að skapa auðæfi sem menn geta svo bara selt, en menn geti alveg farið úr greininni vilji þeir það og selt frá sér kvótann. Kvótaþakið eigi að koma í veg fyrir að kvótinn safnist á fárra hendur.
„Við skulum bara sjá, það er hiti í mönnum. Það eru skiptar skoðanir á þessu eins og eðlilegt er þegar kemur að löggjöf sem snýr að nýtingu auðlinda. Þetta er niðurstaðan og nú einbeitum við okkur bara að því að vinna eftir henni. Ég tel að þarna séu tækifæri, en við þurfum vissulega að vera vakandi fyrir því að einhverjir hnökrar geti komið upp,“ segir Þórarinn.