Forstjóri fasteignafélagsins sem á bygginguna segir tjónið minna en óttast var við. Allt húsið er í eigu fasteignafélagsins Heima.
Fréttamaður fór yfir stöðuna á svæðinu þar sem eldsvoðinn varð og ræddi við Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóra í Kvöldfréttum.
„Slökvistarfið gekk bara vel. Eins og þú sérð er greið aðkoma að þessu þó svo þau [slökkviliðið] hafi þurft að fara yfir blettinn. Meginupptökin eru bara rétt fyrir innan,“ segir Jón Viðar og bendir á að húsið sé vel hannað, það hafi hjálpað til í slökkvistarfinu.
Mikill fjöldi fólks vinnur í húsinu á Höfðatorgi. Aðspurður segir Jón Viðar hafa gengið mjög vel að rýma húsið.
„Algjörlega til fyrirmyndar og ánægjulegt að sjá hvað fólk var yfirvegað og það virtist vera svolítið kerfi á þessu,“ segir Jón Viðar. Fréttastofa ræddi við rýmingarfulltrúa síns vinnurýmis á vegum Reykjavíkurborgar í dag, sem sagði rýminguna hafa gengið vel. Jón Viðar sagði ánægjulegt að sjá að mikið kerfi virtist á rýmingarmálum.
Lögregla rannsakar nú eldsupptök, sem enn eru ókunn. „Það tekur örugglega einhvern tíma að skoða en við fáum örugglega að vita af því þegar það liggur fyrir,“ segir Jón Viðar.