Tólfta umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta fór fram um helgina og nú má sjá öll mörkin úr henni hér inn á Vísi. Þór/KA, Valur, Breiðablik og Keflavík fögnuðu sigri í sínum leikjum í gær.
Sandra María Jessen skoraði þrennu í 4-2 sigri Þór/KA á Þrótti í Laugardalnum. Öll mörkin skoraði hún eftir stoðsendingar frá Huldu Ósk Jónsdóttur.
Hulda gerði betur en hún átti alls fjórar stoðsendingar í leiknum eftir að hafa lagt einnig upp mark Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur.
Leah Maryann Pais og Kristrún Rut Antonsdóttir skoruðu mörk Þróttar sem vann seinni hálfleikinn en 0-3 staða í hálfleik var bara of mikið til að vinna upp.
Katrín Ásbjörnsdóttir var með tvö mörk þegar Breiðablik vann 4-0 útisigur á FH en Birta Georgsdóttir og Karitas Tómasdóttir skoruðu tvö fyrstu mörk Blika í leiknum.
Ungu stelpurnar Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir og Ísabella Sara Tryggvadóttir skoruðu mörk Valsliðsins í 2-0 útisigri á Víkingi. Ragnheiður Þórunn er fædd árið 2007 en Ísabella Sara árið 2006.
Eva Lind Daníelsdóttir skoraði eina markið þegar Keflavík vann 1-0 heimasigur á Fylki. Þetta var hennar fyrsta mark í efstu deild.
Hér fyrir ofan og neðan má sjá mörkin úr leikjunum en ekkert var skorað í leik Tindastóls og Stjörnunnar á laugardaginn.