Rétt fyrir hádegi barst Hálendisvakt Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Landmannalaugum útkall vegna málsins.
Félagar úr björgunarsveitinni Ægi í Garði voru að ljúka hálendisvakt í dag, en þeir brugðust skjótt við og héldu á staðinn.
Voru gegnblaut og köld
„Þegar að var komið var fólkið komið út úr bílnum og hélt til á þaki hans. Björgunarmaður með straumvatns-björgunarbúnað óð til þeirra og aðstoðaði fólkið í land. Þau voru gegnblaut, mikið vatn hafði flætt inn í bíl þeirra, og talsvert köld,“ segir í tilkynningu Landsbjargar.

Ferðamennirnir voru vafnir í ullarteppi þegar þau komu í land og færð í bíl björgunarsveitarinnar. Bíllinn var losaður úr ánni, reyndist gangfær, og var fluttur að Landmannalaugum ásamt fólkinu, þar sem þeirra beið heitt kakó og vel kynt hús.
Hjáleið fyrir vel útbúna bíla
Hringvegurinn er eins og sakir standa lokaður milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs, en miklar skemmdir eru á veginum á um 700 metra kafla eftir jökulhlaup úr Mýrdalsjökli í gær.
Sérútbúnir bílar geta keyrt hjáleið um Fjallabaksleið nyrðra, en vegna mikillar úrkomu getur sú leið líka orðið illfær.

Gul veðurviðvörun er á Suðurlandi, Suðausturlandi og Miðhálendinu vegna mikillar úrkomu, og búast má við vatnavöxtum í ám og geta vöð yfir ár orðið ófær.
