Yfirvöld í Ísrael eru sökuð um að standa að baki árásinni en þarlend stjórnvöld hafa ekki lýst yfir ábyrgð á henni. Ísraelsher staðhæfði í dag að Mohammed Deif, annar hátt settur leiðtogi Hamas og yfirmaður hernaðararms samtakanna hafi drepist í árás hersins í júlí. Fulltrúar Hamas hafa ekki staðfest þessar fregnir.
Ali Khamenei, æðsti klerkur Írans og fulltrúar herskárra palestínskra samtaka sem njóta stuðnings hans biðu bænir yfir kistu Haniyeh og lífvarðar hans í Tehran-háskóla í dag. Við hlið þeim stóð Masoud Pezeshkian, nýr forseti landsins.
Útsendingar íranska ríkissjóvarpsins sýndu hvernig líkkisturnar voru færðar um borð í vöruflutningabíl sem keyrði að Azadi-torgi í Tehran á meðan fólk fyllti göturnar og fleygði blómum í átt að kistunum.
AP-fréttaveitan greinir frá þessu en eftir athöfnina verður lík Haniyeh flutt til Katar þar sem það verður borið til grafar.
Stóð við hlið forseta skömmu áður
Haniyeh kom til Tehran til að vera viðstaddur innsetningu Pezeshkian í embætti forseta síðasta þriðjudag. Ljósmyndir sýndu Hamas-leiðtogann faðma forsetann og hafði hann áður fundað með Khamenei, æðsta leiðtoga Íran.
Nokkrum klukkustundum síðar var Haniyeh drepinn í loftárás en hún hæfði íbúðahúsnæði sem hann notaði í Tehran. Írönsk yfirvöld segja árásina til rannsóknar og hafa heitið hefndum.
Ísraelar höfðu áður gefið út að þeir vildu drepa drepa Haniyeh og aðra leiðtoga Hamas vegna árásar samtakanna á suðurhluta Ísraels þann 7. október sem leiddi til núverandi átaka á Gasa.
Stjórnvöld í Íran styðja Hamas, sem og Hesbollah og aðra herskáa palestínska hópa sem berjast gegn Ísrael á Gasa.
Kallar eftir vopnahléi
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði að „allir aðilar“ í Mið-Austurlöndum yrðu að forðast aðgerðir sem gætu valdið frekari átökum á svæðinu.
Blinken sagði að vopnahlé milli Ísraela og Hamas á Gasa væri eina leiðin til að rjúfa núverandi vítahring ofbeldis og þjáningar. Blinken nefndi hvorki Ísrael, Íran né Hamas á nafn í ummælum sínum sem hann lét falla í Ulaaanbataar, höfuðborg Mongólíu í dag.
Um 39.480 Palestínumenn hafa farist og meira en 91.100 særst í árásum Ísraelshers á Gasa síðastliðna tíu mánuði, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa. Á sama tíma eru yfir 80 prósent íbúa á svæðinu talin vera á flótta eða um 2,3 milljónir manna. Búa langflestir við bágbornar aðstæður í tjaldbúðum á suðvesturhorni Gasa með takmarkað aðgengi að fæðu og vatni.
Ísrael og Íran hafa átt í langvarandi átökum og var óttast að stríð gæti brotist út fyrr á þessu ári þegar þegar Ísrael réðst á sendiráð Írans í Damaskus í apríl. Íranir svöruðu árásinni og bæði ríkin gerðu áður óþekktan fjölda árása á landsvæði hvors annars. Eftir aðkomu alþjóðasamfélagsins tókst að draga úr spennunni áður en frekari átök brutust út.
Við innsetningarathöfn Pezeshkian sýndi hann Palestínumönnum stuðning í ræðu sinni og sagði „Íran heimta heim þar sem engir draumar palestínskra barna eru grafnir undir rústum heimilis þeirra.”