Lækkunin í Asíu í gær, fyrst og fremst í Japan þar sem Nikkei hrundi um meira en tólf prósent, hafði í för með sér keðjuverkun á mörkuðum í Bandaríkjunum og Evrópu í gær. Hún var rakin til áhyggna af efnahagshorfum í Bandaríkjunum eftir að atvinnuleysistölur sem voru gefnar út á föstudag voru ekki í samræmi við væntingar. Sviptingarnar þóttu minna á hrun sem átti sér stað árið 1987 sem breiddi úr sér um allan heim.
Stephen Innes frá SPI Asset Management líkir hækkuninni í dag við björgunarbát í viðtali við AP-fréttastofuna. Oft sé stutt milli hláturs og gráturs á mörkuðunum.
„Hraðar vendingar hlutabréfaviðskipta geta breytt því sem virðist skelfileg staða í hverfula minningu sem menn hlæja oft að í kauphöllinni daginn eftir,“ segir Innes.
Nikkei-vísitalan stendur nú 7,7 prósent hærra en hún gerði fyrir ári en níu prósentum lægra en hún gerði fyrir þremur mánuðum.