Barinn er í sama húsi og Nordic Hostel og eru bæði bar og hostel í eigu Helga Ólafssonar. Dóttir hans, Ragnheiður Sara Sörensen, er rekstrarstjóri Snorrabars og segist hafa fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir bar í hverfinu.
„Við stefnum á að fá innblástur frá Loft Hostel og Kexinu. Við ætlum að vera með DJ-a og aðra viðburði en ekki stórtónleika heldur frekar rólegri tónleika,“ segir Ragnheiður í samtali við Vísi. Tónlistarviðburðir verði þó minni í sniðum en á Kex Hostel fyrir breytingar.

„Við viljum bjóða nágranna okkar velkomna og gera þetta að heimabar þeirra sem eru hérna í hverfinu.“
Á ekki að vera skemmtistaður
Staðurinn opnaði fyrir um mánuði síðan og segir Ragnheiður að staðurinn hafi verið vel sóttur.
„Allir þeir sem ég hef talað við sem búa hérna í hverfinu eru mjög spenntir að fá hverfisbarinn. Af því að þetta er líka bara bar, þetta á ekki að vera skemmtistaður. Það verða ekki læti og það á ekki að vera ónæði fyrir nágranna eða fólkið sem er að gista,“ segir Ragnheiður.
Hún segist mjög ánægð með staðsetninguna og barinn vinni vel með veitingastaðnum Just Winging It, sem er á neðri hæð hússins.
„Við ætlum að keyra út á fegurð og hafa hann alltaf snyrtilegan og fínan.“

Reksturinn fari ótrúlega vel af stað
Ragnheiður segir stílhreinn staðurinn sé hugarfóstur Helga pabba síns.
„Hann sá bara um þetta allt. Hann er búinn að ferðast um allan heim og fá hugmyndir. Síðan er Helgi svo mikill fagurkeri og þetta er allt hans.“
Mikil umræða hefur verið meðal veitingamanna undanfarin misseri um hve erfitt getur reynst að ná árangri í geiranum. Margir hafa kvartað undan háum vöru- og áfengiskostnaði og háum launalið. Ragnheiður segist ekki hafa áhyggjur af þessu.
„Ég er mjög bjartsýn og þetta er að byrja svo ótúrlega vel. Ég vona bara það haldi áfram. Við erum búin að fá frábærar viðtökur frá ótrúlegasta fólki,“ segir Ragnheiður.