Í fréttatilkynningu þess efnis segir að aukin áhersla á samstarf við flugfélög hafi útvíkkað markaðstækifæri Icelandair og styrkt leiðakerfi félagsins, sem samanstandi af 34 áfangastöðum í Evrópu og 17 í Norður-Ameríku. Fyrst um sinn muni flugfélögin bjóða upp á flugtengingar um Baltimore-Washington flugvöll.
Spennt og stolt
„Við erum mjög spennt fyrir því að Southwest bætist í öflugan hóp samstarfsflugfélaga okkar og erum stolt af því að þau hafi valið okkar sem sitt fyrsta samstarfsflugfélag. Samstarfið mun opna spennandi ferðamöguleika fyrir okkar viðskiptavini og okkar öfluga leiðakerfi í Evrópu mun sömuleiðis opnast fyrir viðskiptavinum Southwest,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair.
Icelandair hafi skýra stefnu um að hefja samstarf við flugfélög sem þekkt eru fyrir að veita frábæra þjónustu og öflugar tengingar, og það sé Southwest svo sannarlega.
„Við bjóðum Southwest velkomin í hóp samstarfsaðila og hlökkum til að vinna saman að því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á þægilega og ánægjulega ferðaupplifun.“
120 áfangastaðir í Norður-Ameríku
„Icelandair verður fyrsta samstarfsflugfélagið okkar en félagið deilir með okkur áherslum á hlýjar móttökur og góða upplifun. Með samstarfinu munum við framlengja leiðakerfi okkar enn frekar, en nú bjóðum við upp á flug til um 120 áfangastaða í Norður-Ameríku. Við erum þakklát fyrir traustið og samstarfsviljann sem nú hefur tengt leiðakerfi okkar frábæru flugfélaga með það að markmiði að bæta þjónustuna við viðskiptavini beggja vegna Atlantshafsins,“ er haft eftir Ryan Green, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Southwest.