Samkeppniseftirlitið lagði í fyrra 4,2 milljarða króna sekt á Samskip fyrir alvarleg brot á samkeppnislögum með ólöglegu samráði við Eimskip á árunum 2008 til 2013. Sektin var sú hæsta sinnar tegundar. Eimskip gerði sátt við eftirlitið vegna sömu brota árið 20201 og samþykkti að greiða 1,5 milljarða króna sekt.
Sátt Eimskipa við eftirlitið fól meðal annars í sér að fyrirtækið skuldbatt sig til þess að hætta viðskiptalegu samstarfi við Samskip, væri það enn til staðar.
Samskip vildi ekki una sáttinni sem samkeppnisaðilinn gerði við Samkeppniseftirlitið og kærði hana til áfrýjunarnefndar samkeppnismála árið 2021. Krafðist fyrirtækið þess að ákvæði sáttarinnar um að Eimskip hættu viðskiptalegu samstarfi við Samskip yrði fellt úr gildi.
Þegar áfrýjunarnefndin vísaði kærunni frá á þeirri forsendu að Samskip ættu ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins höfðaði fyrirtækið mál gegn Samkeppniseftirlitinu til þess að fá úrskurðinn ógiltan.
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu Samskipa í dómi sem féll í nóvember árið 2022 og ógilti úrskurð áfrýjunarnefndarinnar. Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu við með dómi sem var kveðinn upp í dag.
Höfðu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður
Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að aðilar að samráðsmáli sem væri til rannsóknar og hefði ekki viðurkennt brot gætu ekki talist aðilar að sátt annars málsaðila sem hefði viðurkennt brot.
Landsréttur vísaði til þess að Samskip hefðu átt kost á að koma að sínum sjónarmiðum við rannsókn Samkeppniseftirlitsins, meðal annars ákvæðið í sáttinni við Eimskip og hvernig það hefði áhrif á hagsmuni fyrirtækisins.
Samskip hefðu því ekki sýnt fram á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af sátt Eimskipa við Samkeppniseftirlitið. Fyrirtækið nyti því ekki kæruaðildar fyrir áfrýjunarnefndinni vegna sáttarinnar.