Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 fylgjum við áhöfn Boeing 747-fraktþotu Atlanta í fjögurra sólarhringa leiðangri. Flogið er með lyfjafarm frá Liege í Belgíu til Jóhannesarborgar í Suður-Afríku. Þaðan er flugvélinni flogið yfir til Nairobi í Kenýa þar sem áhöfnin þarf að taka sér hvíld áður en hún flýgur áfram með blómafarm til Evrópu.
Hér er tíu mínútna myndskeið úr þættinum:
Við komum inn í þáttinn þar sem flugmennirnir eru að nálgast miðbaug og þurfa að mæta þeirri áskorun að varasamir skýjabólstrar yfir Afríku ná upp í flughæð vélarinnar. Þeir vilja forðast þessa tegund skýja og óska því eftir heimild flugstjórnar til að beygja frá þeim.
Í aðfluginu að flugvellinum í Nairobi vex spennan eftir því sem flugbrautin nálgast. Hún liggur í 1.600 metra hæð og loftið því mun þynnra en við sjávarmál. Þar þurfa flugmennirnir auk þess að taka tillit til mikils hitauppstreymis frá jörðinni.

Flugmennirnir skila flugvélinni í höfn, framundan er langþráð hvíld á hóteli.
Hvað gera svo flugáhafnir í stoppi? Ef þú ert í Kenýa, þá er einn möguleikinn að skoða villta náttúru.

Það er þó byrjað á slökun í sundlaug áhafnahótelsins en þaðan sér yfir Nairobi-þjóðgarðinn. Þegar við skimum eftir dýrum komum við brátt auga á zebrahesta. Okkur finnst það nánast fáránlegt að geta horft á villidýr Afríku úr sundlaug flugvallarhótels.

Við Egill Aðalsteinsson kvikmyndatökumaður sláumst í för með áhöfninni í safari-ferð inn í þjóðgarðinn. Á aðeins þremur klukkustundum sjáum við nánast alla fánu helstu dýra Afríku. Hér eru vísundar og gnýir, antilópur, apar og framandi fuglategundir, meira að segja strútar. Við komumst í návígi við gíraffa og nashyrninga og sjáum flóðhesta.

En hápunkturinn eru ljónin, sem komin eru í veiðihug og farin að huga að næstu máltíð. Þau eru búin sjá að hjörð gnýja og brátt sjáum við þau ráðast til atlögu að einu dýranna.
Bílstjórinn okkar gerist svo djarfur að aka alveg upp að og þar sjáum við ljónið úr örfárra metra fjarlægð murka lífið úr dýrinu.

En sömu ljón sjá hjörð vísunda nálgast. Þau eru ekkert að tvínóna við hlutina, heldur ráðast á einn, og ná fljótlega að snúa hann niður og drepa. Þau voru samt ekki búin að drepa hitt dýrið en annað ljónið snýr sér svo aftur að því verki.
Atlanta-áhöfnin sér þarna á fáum mínútum ljónin ráðast á og drepa tvö dýr.

„Tignarleg sjón þarna, að sjá ljónin vera á veiðum. Þetta var nú bara rétt handan við hornið á hótelinu. Við sáum nú bara inn í þennan þjóðgarð af ræktinni á hótelinu,“ sagði Þorsteinn.
„Þetta er ekki eitthvað sem maður gerir á hverjum degi,“ sagði Telma Rut.
„Ég hef bara aldrei séð áður ljón svona í skóginum. Þetta er í fyrsta skipti sem ég sé þetta. Þetta var mögnuð upplifun,“ sagði Róbert.
Styttri tveggja mínútna útgáfa af árásum ljónanna, sem sýnd var í fréttum Stöðvar 2, er hér:
Fimmti þáttur Flugþjóðarinnar, um Afríkuhring Atlanta-þotunnar, verður endursýndur á Stöð 2 í dag, sunnudag 6. október, klukkan 16:55.
Sjötti þáttur Flugþjóðarinnar annaðkvöld, mánudagskvöld 7. október, nefnist Fólkið í fluginu og er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19:15. Þá rýnum við í flugáhugann á Íslandi, hittum fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna úr fluggeiranum, spyrjum hversvegna Íslendingar urðu flugþjóð og heyrum mergjaðar flugsögur.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er. Hér má sjá kynningarstiklu fyrir þáttaröðina: