Teitur gerði garðinn frægan sem leikmaður Njarðvíkur á sínum tíma og varð tíu sinnum Íslandsmeistari með liðinu og fjórum sinnum valinn besti leikmaður efstu deildar.
Njarðvík kvaddi Ljónagryfjuna, heimavöll sínn í síðustu viku, og voru heiðursmennirnir Rúnar Birgir Gíslason, Gunnar Freyr Steinsson og Óskar Ófeigur Jónsson búnir að taka saman tölfræði tengda leikjum Teits í Ljónagryfjunni sem er hreint út sagt ótrúleg og má sjá á skiltinu hér fyrir neðan.

„Þetta er eitthvað annað. Þessi tölfræði sem hér hefur verið sett upp. Þessi gæi getur allt. Án gríns. Hann fór holu í höggi um daginn,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, betur þekktur sem Jonni, einn af sérfræðingum Körfuboltakvölds.
„Þessi vika fyrir Teit var rosaleg,“ sagði Stefán Árni og í kjölfarið var spilað myndband úr fórum Teits er hann áttaði sig á því að hann hefði farið holu í höggi. Umrætt myndband má sjá í innslaginu hér fyrir neðan.
„Skiljanleg viðbrögð. Þetta er afrek,“ bætti Stefán Árni við og sérfræðingar Bónus Körfuboltakvölds tóku undir það.
„Þetta sýnir hvaða keppnisskap þessi drengur hefur að geyma,“ sagði Jonni. „Hann byrjaði að stunda golf fyrir ekki mörgum árum síðan og er all-in í því eins og hann var í körfuboltanum. Þetta er yndislegur drengur. Eins og við þekkjum. Var stórkostlegur íþróttamaður og er greinilega enn. Ekkert nema endalaus virðing gagnvart því sem að hann hefur afrekað.“