Diallo skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri en þetta var fyrsti sigur United manna í Evrópukeppninni í vetur.
Þetta var líka fyrsti og síðasti Evrópuleikurinn undir stjórn Ruud van Nistelrooy. Hann stýrir liðinu í síðasta sinn á móti Leicester í ensku úrvalsdeildinni um helgina.
Hinn 22 ára gamli Amad skoraði bæði mörkin sín í seinni hálfleiknum. Það fyrra kom á 50. mínútu eftir stoðsendingu frá Bruno Fernandes en það síðara kom eftir flott einstaklingsframtak.
Amad fagnaði seinna marki sínu klaufalega og virtist meiðast við það. Stuttu síðar fór hann meiddur af velli. Seinna kom þó í ljós að hann hafði fengið högg í aðdraganda marksins. Honum tókst engu að síður að klára færið frábærlega.
„Það var langt síðan að við unnum í Evrópu. Í dag sýndum við að við erum eitt af bestu liðunum. Það var mikilvægt að vinna í dag,“ sagði Amad Diallo við TNT Sports.
„Það er líka mikilvægt fyrir mig að skora í öllum leikjum. Ég hef verið óheppinn á þessu tímabili og ég er því ánægður með að skora tvö mörk í dag. Mikilvægast var þó að vinna,“ sagði Amad.
Hann talaði þó ekkert um meiðslin sín og líkur er á því að þau hafi ekki verið alvarleg.
Stuðningsmenn United leggjast örugglega á bæn enda hefur strákurinn sýnt það og sannað að hann á heima í byrjunarliði liðsins.