Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands. Easyjet hefur einnig flogið milli London og Akureyrar og lenti flugvél frá London eftir hádegið í gær, nokkrum klukkustundum á eftir vélinni frá Manchester.
Umsvif easyJet á Akureyrarflugvelli hafa tvöfaldast með tilkomu flugferða frá Manchester frá því sem var síðasta vetur, þegar flugfélagið bauð upp á ferðir frá London í fyrsta sinn.
Markaðsstofa Norðurlands segist undanfarin misseri hafa lagt mikla áherslu á að kynna landshlutann og norðlenska ferðaþjónustu í samhengi við þessi flug easyJet, til að mynda með sérstökum viðburði sem haldinn var í Manchester í haust.
Þá kom hópur af starfsfólki frá ýmsum breskum ferðaskrifstofum með fluginu frá Manchester í dag, til að fara í kynnisferð um landshlutann en slíkar ferðir eru reglulegar í starfi MN og mjög mikilvægar.
Um næstu helgi er von á hópi breskra blaðamanna sem koma bæði frá London og Manchester. Þessi verkefni eru unnin undir hatti Nature Direct verkefnisins.