Þetta kemur fram í bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar til fulltrúa foreldrafélags leikskólans Sólborgar sem fréttastofa hefur undir höndum. Segir að eftirlitið hafi samþykkt þá tilhögun til reynslu á meðan endurskoðunin stendur yfir.
Foreldrar barna á leikskólanum, sem staðsettur er nærri bálstofunni, hafa síðustu misserin harðlega mótmælt starfsemi bálstofunnar vegna mengunarinnar sem af henni hlýst. Þegar líkbrennsla fer fram leggur svartan reyk frá bálstofunni, oft yfir leikskólalóðina þar sem börn eru að leik.
Að neðan má sjá viðtal við Matthías Kormáksson, formann Foreldrafélags Sólborgar síðastliðinn föstudag, þar sem hann ræddi við fréttamann um starfsemi bálstofunnar.
Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins segir að forsvarsmenn Kirkjugarða Reykjavíkur hafi einnig óskað eftir dagbrennslu þegar þeir þurfi á að halda, meðal annars þegar álag sé mikið. Heilbrigðiseftirlitið hafi samþykkt það að því tilkyldu að bálstofan leiti samþykkis hjá heilbrigðiseftirlitinu í hverju tilfelli fyrir sig og að þá yrði meðal annars tekið mið af veðuraðstæðum og vindátt hverju sinni.
Heilbrigðiseftirlitið hefur farið fram á að umrædd breyting á starfsháttum bálstofunnar hefjist sem fyrst.
Reykjavíkurborg tilkynnti á föstudaginn að endurskoðun myndi fara fram á starfsleyfi bálstofunnar þar sem að mengun hefði reynst meiri en búast mátti við þegar leyfi bálstofunnar var gefið út árið 2021.
Í frétt Vísis fyrr í vikunni sagði að slík endurskoðun gæti tekið margar vikur, en í bréfi heilbrigðiseftirlitsins segir að endurskoðun standi enn yfir og að stefnt væri að því að ljúka henni sem fyrst.
Foreldrar með augun á strompinum
Inntur eftir viðbrögðum foreldra segir Matthías Kormáksson, formaður foreldrafélags Sólborgar: „Við fögnum þessum áfanga en leggjum áherslu á að enn vantar tímalínu á innleiðingu næturbrennslunnar. Á meðan verða augu okkar foreldra á strompinum.“